13. júní 2022

Framúrskarandi árangur á sveinsprófi

Atli Berg Kárason vélvirki vann til verðlauna fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi fyrr á þessu ári. Atli er búinn að starfa hjá Alcoa Fjarðaáli síðan í maí 2018, fyrst sem nemi í vélvirkjun en starfar nú sem iðnaðarmaður á miðlægu viðhaldsvaktinni. Um námsferil sinn segir Atli: „Ég útskrifaðist úr vélvirkjun árið 2019 og tók sveinspróf árið 2020. Ég valdi vélvirkjun þar sem fjölmargir möguleikar eru í boði í iðnaði að námi loknu. Þá er hægt að bæta við sig námi og miklir starfsmöguleikar á mjög breiðu sviði.“

Ár hvert stendur Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík fyrir nýsveinahátíð þar sem nýsveinum úr hinum ýmsu iðngreinum er veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi. Í ár voru nýsveinar áranna 2020 og 2021 verðlaunaðir. Forseti Íslands er verndari hátíðarinnar og veitti viðurkenningarnar. Einnig voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra viðstödd. Bæði fluttu ávörp á hátíðinni.

Atli segir að viðurkenningin hafi mikla þýðingu fyrir sig: „Þetta segir mér að ég sé að gera eitthvað rétt og hafi staðið mig í náminu og er líka hvatning til að halda áfram og gera betur. Mér finnst þetta mikill heiður og ég get alveg sagt að ég er stoltur af þessu. Núna er ég að bæta við mig námi í rafvirkjun með vinnu og er þessi viðurkenning mikil hvatning í því.“

Þegar Atli er spurður hvort hann mæli með iðnnámi fyrir ungt fólk segist hann hiklaust gera það: „Það eru miklir starfsmöguleikar í boði fyrir iðnaðarmenn og tækifæri til starfsnáms hafa batnað mikið. Mörg fyrirtæki bjóða upp á starfsnám í dag og það er mikil vöntun á iðnaðarmönnum. Mér finnst að það þurfi að gera iðnnámi hærra undir höfði, sérstaklega fyrir ungt fólk því bóknám hentar alls ekki öllum.“

Alcoa Fjarðaál óskar Atla innilega til hamingju með þessa glæsilegu viðurkenningu og óskar honum áframhaldandi velferðar í námi og starfi.

Atli-2-med-forseta

Atli Berg Kárason, vélvirki og starfsmaður Alcoa Fjarðaáls.

Atli-1

Atli Berg Kárason ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni en hann er verndari hátíðarinnar og veitti viðurkenningarnar.